fbpx
Home/Fróðleikur/Þýðing þarmanna fyrir heilsu og vellíðan

Þýðing þarmanna fyrir heilsu og vellíðan

Bengt Jeppsson

Á sænska heilsuvefnun Hälsojungeln eru birt blogg um nýlegar rannsóknir í heilbrigðismálum. Þar segir að gríðarlegar rannsóknir séu í gangi á þýðingu þarmanna fyrir vellíðan okkar.  Slíkar rannsóknir séu hins vegar ekki nýlunda fyrir Bengt Jeppsson, sem hafi stundað þær í áratugi. Hann er heiðursprófessor og fyrrum yfirlæknir við háskólasjúkrahúsið á Skáni og við háskólann í Lundi. Hälsojungeln átti við hann stutt viðtal.

Getur þú sagt okkur frá rannsóknum á þýðingu þarmanna fyrir vellíðan fólks?

Við fengum áhuga á þarmaflórunni á níunda áratugnum, þegar við urðum þess vör að sjúklingar, sem lágu á bráðadeildinni með mörg illa starfhæf  líffæri, létust af blóðeitrun þó þeim væru gefin sýklalyf. Margir vísindamenn tókust á við þetta og líka við. Það lá fyrir að bakteríurnar sem ollu blóðeitruninni áttu rætur að rekja til magaþarmanna. Við neyddumst til að grípa til róttækra aðgerða – sýklalyf virkuðu ekki á þær. Svo við prófuðum að snúa þessu við og bættum bakteríum í þarmaflóruna í staðinn.  Við notuðum góðar bakteríur, svo sem mjólkursýrugerla. Þá er að finna í matvælum, til dæmis jógúrt og súrmjólk.

Bakteríustofnar þarmaflórunnar voru illa skilgreindir. Við eyddum því mörgum árum í að reyna að flokka magnið af mjólkursýrugerlum og finna hvers konar mjólkursýrugerlar eru í eðlilegri slímhimnu í þörmunum. Þeir lifa í þörmunum ef allt er eins og það á að vera, en sýklalyfjanotkun bælir þá, einnig lélegt fæði, streita og ýmislegt annað sem á rætur að rekja til nútíma lifnaðarhátta.